22.11.2008 | 20:19
Má búast við heiðarlegri endurreisn Nýja-Íslands?
Í hvað fara peningarnir sem þjóðin hefur fengið að láni. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það. Hve mikið fer í að borga svokölluð jöklabréf? Hve mikið til þess að bjarga gjaldþrota sjávarútveginum frá því að lenda í höndum erlendra banka? Er eðlilegt að sömu öfl og komu okkur á vonarvöl fái að ráðskast með peninga sem við og afkomendur okkar þurfum að borga með blóði, svita og tárum. Enn hefur ekkert verið sagt um það hvernig á að afla tekna í framtíðinni. Enn er ekkert farið að ræða um það hvernig megi nýta auðlindir landsins á sem hagkvæmastan hátt fyrir þjóðina alla. Enn hefur ekkert komið fram um það að íbúar landsins muni allir sitja við sama borð í framtíðinni þegar farið verður að skipta tekjunum sem aflað verður.
Það vantar alla umræðu um grundvallaratriði og segja má að það sé undarlegt þar sem sem hér er ekki um flókna hluti að ræða. Það eru bara einfaldar spurningar um réttlæti. Í orði kveðnu eigum við öll að hafa fengið uppeldi sem byggist á frelsi, jafnrétti og bræðralagi. Það ættu allir að vita hvað þessi orð þýða.
Við vitum hvað hefur gerst og við þurfuð að vita hvers vegna. Þegar búið er að skilgreina allan aðdraganda ófaranna, áratugi aftur í tímann, þá fyrst er hægt að byrja heiðarlega uppbyggingu. Ég get ekki séð að neinn stjórnmálaflokkur sé farinn að fjalla af neinu viti um grundvallaratriði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.