25.11.2008 | 00:00
Gjafakvótinn var upphafið og ætti að vera endirinn á sorgarsögunni.
Þorvaldur Gylfason benti réttilega á það á fundinum í Háskólabíói í kvöld að framsalið í kvótakerfinu væri upphafið að þeim endalokum sem við nú þurfum að upplifa. En fáum við að sjá endalok kvótakerfisins sem lagt hefur margar sjávarbyggðir í rúst? Ég hlustaði á viðtal við Friðrik J. Arngrímsson hjá LÍÚ í útvarpinu um daginn og þar sagði hann að stór hluti af útgerð í landinu væru gjaldþrota. Erlendir bankar ættu veð í aflaheimildunum en það væri þó ljós punktur að útlendingar mættu ekki eiga þær nema í eitt ár. Ef ég man rétt þá kom ekkert fram um það hvað nú tæki við. Engin umræða fer fram um þetta mál og þó að Þorvaldur nefndi þetta og Einar Már rithöfundur vildi gjafakvótakerfið burt þá spyr enginn um það hvað eigi að gera við kvótakerfið. Þessi frábærlega vel rekni sjávarútvegur okkar skuldar líklega 1000 milljarða króna og nú eigum við skuldina. Er verið að ráðstafa peningunum sem teknir eru að láni með okkar ábyrgð til þess að bjarga þessum "vel reknu" fyrirtækjum. Það vantar alla skynsamlega umræðu um þessi mál og það þarf að útskýra það með dæmum og tölum að hvaða leyti sjávarútvegurinn er vel rekinn. Það þarf að segja frá því hverju hefur verið fórnað og hvað hefur komið í staðinn. Það þarf að bera saman mismunandi útgerðarform og vinnsluleiðir og sjá hvað er best fyrir þjóðina. Skynsamleg umræða um þessi mikilvægu mál hefur verið nær engin og enga skýringu sé ég á því nema þá að fréttamenn hafa verið fullkomlega fáfróðir um þennan mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar fyrr og síðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.