Eigum við stjórnmálamenn sem segja satt, þora að gera það sem gera þarf og stuðla að sanngjarnri dreifingu byrðanna?

Ég keypti Morgunblaðið í flugvélinni á leið heim frá Kaupmannahöfn í gær.  Var orðinn sæmilega úthvíldur eftir nokkurra daga frí frá Íslandi ohf.  “Endurreisnin hafin” er fyrirsögnin á leiðara blaðsins á bls. 26.  Þar er fjallað um væntanlegan halla ríkissjóðs á komandi árum og niðurskurð stjórnvalda á ríkisútgjöldum til að mæta honum.  Síðan er sagt frá viðtali við Göran Persson fyrrverandi fjármála- og forsætisráðherra Svíþjóðar en hann hefur mikla reynslu eftir bankakreppuna þar í landi 1992-1995.  Ég ætla ekki að rekja efni viðtalsins en niðurlag leiðarans er: “Þótt reyni á ráðamenn við þessar aðstæður hvílir endurreisn íslensks samfélags á herðum fólksins.  Sú vegferð er nú hafin”  
Á blaðsíðu 27 er grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson sem var ráðherra í ríkisstjórn Íslands 1988-1995.  Greinin fjallar um ræðu Görans Persson sem hann hélt í boði Viðskiptadeildar H.Í. og Félags fjárfesta.  Jón segir að ræðan hafi verið mögnuð og ekki neinn vafi á að hann hafi viljað ráða okkur heilt.  Persson hafi lagt áherslu á að þótt sjálfur efnahagsvandinn væri um margt ólíkur þá væri pólitíski vandinn hinn sami.  Hann snýst um það að byggja upp traust á aðgerðum stjórnvalda og að sameina krafta þjóðarinnar í uppbyggingarstarfi.  Persson hafi lagt áherslu á þrennt, sem að hans mati skiptir sköpum um árangur. 

1. Að segja satt
2.
Að þora að gera það sem þarf að gera
3.
Sanngjörn dreifing byrða

Í greininni er líka fjallað um Evrópusambandið en það er ekki það sem olli því að ég var farinn að finna fyrir reiðinni sem mér hafði tekist að gleyma í nokkra daga.  Það sem vakti þessa tilfinningu var það að fyrrverandi stjórnmálamaður á launum hjá mér væri yfirhöfuð að tjá sig um þessi mál.  Maður sem stuðlaði á sínum tíma að framsali aflaheimilda sem margir hagfræðingar telja upphafið að hruninu sem við upplifum nú.  Jón hvarf á braut þegar kúrsinn hafði verið settur á frjálshyggjuna og ekki veit ég til þess að hann hafi gert neitt til þess að forða okkur frá því feni sem við nú erum að sökkva í. 
Og svo fletti ég yfir á bls. 28.  Þar er lítil grein “Það er ekki einleikið hvað guð er glíminn”  Mér fannst fyrirsögnin skrítin og höfundurinn einhver Svavar Gestsson.  Hann er þarna að skrifa um söguslóðir Íslendinga í Kaupmannahöfn og hvernig minnast megi 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar og niðurstaðan að sniðugt væri að fara í söguferðir um slóðir Jóns í Höfn.   Auðvitað sá ég rautt þegar ég áttaði mig á hver höfundurinn er og hversu lítið getur lagst fyrir suma.  Það var ekki fyrr en hann minntist á Þjóðviljann og fyrrverandi kollega sem hafa nú gefið út bækur um heimspekileg málefni að ég áttaði mig á að þetta var Svavar Gestsson sem ég leit upp til í eina tíð og hélt að væri málsvari réttlætis.  En nú er hann bara á mínu framfæri og hefur fyrir löngu brugðist þeim væntingum sem ég eitt sinn hafði til hans. 
Og svo kom ég á bls. 29  en þar er lítill pistill frá Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra.  Hann er að tala um að fjárlögin sem lögð voru fram í haust séu ónýt og það hafi verið mikil vinna að gera ný.  Hann er þarna að segja okkur að í fjárlögum sé lagður grunnur að framkvæmdum sem ráðist verður í á næsta ári og það skipti máli að þær séu vel ígrundaðar.  Þær séu arðbærar til skemmri og lengri tíma o.s.frv. bla bla.  Og að lokum segir hann:  “Við látum ekki stundarhagsmuni raska því starfi sem fyrir höndum er.  Við horfum frekar til framtíðar, til komandi kynslóða.  Þetta er raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir, vandasamt verkefni sem við verðum að klára.  Við ráðum fram úr því eins og öðru.” 

Og svo fór ég niður á Austurvöll í dag og tók þátt í þöglum mótmælum.  Stóð þar við hlið Jóns Sigurðssonar, jafn þögull og hann og horfði á danska skjaldarmerkið á enninu á Alþingishúsinu.  Gekk síðan um  Austurstræti og upp í Lækjargötu og horfði á fallegu myndirnar af erfingjum landsins.  Einhverjir hafa límt miða yfir þær sem á stendur 11.180.000,- 
Að lokum þá á ég eftir að sjá það gerast sem Göran Persson segir að skipti sköpum um framtíð okkar.  Þ.e. að stjórnmálamenn

  1. Segi satt
  2. Þori að gera það sem gera þarf
  3. Stuðli að sanngjarnri dreifingu byrða.
 Og á morgun verð ég kominn heim á Bíldudal og horfi þá yfir fjörðinn að eyðibýlinu Hrafnseyri og get haldið áfram að velta fyrir mér hvernig komið er fyrir íslenskri þjóð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband