Ísland er í straffi

Og enn er bið.  Við svífum í tómarúmi, stjórnlaust og vitum ekkert nema það að lending hlýtur að verða einhvers staðar og einhvern tíman.  Það sem annars fyllti upp í tómarúmið í gær voru orð forseta lýðveldisins á fundi með einhverjum sendiherrum. 

Ísland er í straffi eins og ofdekraður unglingur sem brotið hefur af sér.  Hann fær ekki meiri peninga nema hann láti af óráðsíu og slæmri hegðun.  Hann er ekki vanur að hlýða neinu og nú orgar hann og heimtar og kennir öðrum um.  Hann er jafnvel með hótanir og segist skulu sýna öllum að hann geti vel farið með peninga, hann verði bara að fá meira núna.  En unglingurinn er í slæmum félagsskap og foreldrarnir vita að allt muni fara á sömu leið.  Þau segjast því ekki geta treyst honum fyrir peningum fyrr en hann hætti að vera með þessum vafasömu félögum og temji sér heiðarleika og sparsemi.

Hvað gerist í dag?

Fullveldi Íslands

Mér finnst eitthvað liggja í loftinu, eins og eitthvað óvænt muni gerast.  Það er eins og lognið á undan storminum.  Uppákoman með Bjarna Harðarson fyllti upp í eitthvert tómarúm og við fengum nóg um að tala í dag.  Hvað gerist næst? 

Það sem Bjarni segir í viðtali við Mbl. í dag er mikið umhugsunarefni.  Hann segir að það stafi mikil hætta að fullveldi landsins og að það skorti á skilning margra stjórnmálamanna á því og einnig skorti skilning á grundvallaratriðum í íslenskri pólitík.  Barátta um þetta risti alla flokka.  Kannski hjálpar afsögn Bjarna til við að leysa þennan hnút sem heldur öllu föstu.


Virk markaðssvæði

Í mörgum sjávarbyggðum er búin að vera kreppa s.l. 10 - 15 ár.  Síðan svikamylla frjálshyggjunnar, framsal aflaheimilda, kippti lífsgrundvellinum undan eðlilegu mannlífi, hefur fólk þurft að takast á við atvinnuleysi og eignamissi.  Það er því eðlilegt að benda á að það er mikil reynsla til staðar víða um land við að takast á við kreppu.  Atvinnuleysið var víðast hvar flutt út og það þótti ekkert tiltökumál þó að verðlausar eignir væru yfirgefnar.  Margir eru búnir að upplifa reiðina sem fylgir slíkum hörmungum og það mætti eflaust læra eitthvað af þeirri reynslu í dag.

En það var ekkert tiltökumál að fórna einhverjum minnihlutahópum fyrir hagvöxtinn á hinu virka markaðssvæði og við skulum bara vona að Ísland sé ekki orðið leiksoppur miklu virkari markaðssvæða.  Ef íbúum landsins fækkar um 50% , nei annars, ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda.  Það er erfitt fyrir leikmann að átta sig á því hvað er að gerast í dag og ég vona svo sannarlega að til slíkra hörmunga komi ekki.   Ég get bara ekki horft fram hjá því sem hefur mátt ganga yfir suma landsmenn og vil ekki að það gleymist.


Hið nýja kemur

Það hafa oft verið erfiðir tímar og atvinnuþref á Íslandi og við eru að ganga inn í óvissa tíma núna.  Það veit líklega enginn hvað framtíðin ber í skauti sér og við skulum bara vona að það komi ekki til neinna sambærilegra erfiðleika og þjóðin hefur fyrrum þurft að upplifa.  En við skynjum öll að það eru miklar breytingar í uppsiglingu og þá þarf að huga að því hvernig samfélag við viljum byggja upp að nýju.  Það verður í okkar höndum að skapa betri heim.

Í lok kreppunnar miklu þá orti Guðmundur Ingi Kristjánsson ( 1907 - 2002 ) frá Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirð um nýja tíma.  Þetta var árið 1934 og það var að birta til eftir erfið ár.  Við munum standa í svipuðum sporum og þjóðin stóð í fyrir rúmlega sjötíu árum og því langar mig til að láta tvö erindi úr þessu frábæra ljóði fylgja hér með.  Ljóðið er í bókinni Sóldagar sem er ljóðasafn Guðmundar Inga.

Hið nýja kemur"

 

Það kemur, það kemur, hið nýja, hið nýja!
-- Hvar ætlar þú þína dáð að drýgja?

Ertu liðsmaður hins sem hverfur og fer

eða hermaður þess sem í vændum er?

 

Framtíðin heilsar. Hún kveður og kallar:

Komdu með störf þín og hugsanir allar.

Er þér harmur að veturinn hverfi úr dal?

Eða hræðist þú vorið sem koma skal?

 

 

 


Smjörklípuaðferðin

Nú virðist ekki vera mikið skipulag á björgunaraðgerðunum.  Leitin að raunverulegu sökudólgunum (þeim sem orsökuðu slysið) er aftur á móti á fullu.  Til þess að draga athyglina frá sjálfum sér eða til þess að hylja slóð sína þá beyta menn ýmsum brögðum.  Ein aðferðin sem gagnast hefur vel er hin svokallaða smjörklípuaðferð. 

Nú er afar mikilvægt að láta ekki rugla sig í ríminu.  Þess vegna langar mig að minna á að það er ekki allt sem sýnist.  Ég er eflaust ekki fær um að segja til um hvað sé rétt og hvað rangt í einhverjum smáatriðum en ég hef myndað mér ákveðna skoðun varðandi heildarmyndina.

Meðfylgjandi eru skýringar á þessari athyglisverðu aðferð.

 Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu:

Smjörklípuaðferðin er hugtak sem er notað yfir þá aðferð í opinberri umræðu að beina athyglinni frá orði sínu eða athöfnum með því að benda á eitthvað annað bitastæðara.

Hugtakið er rakið til Davíðs Oddssonar sem í Kastljósþætti þann 3. september 2006, aðspurður um aðferðir sem hefðu gagnast honum í pólitík, sagði sögu af frænku sinni fyrir vestan sem hafði þann sið að klína smá smjörklípu á heimilsköttinn þegar þörf var á að halda honum uppteknum um smá tíma.

Aðferðin er nátengd málshættinum „svo skal böl bæta að benda á annað verra“.


Er búið að skipta um mannskap í brúnni?

Viðvörunarraddir af landsbyggðinni hafa lengi bent á að landið muni sporðreisast ef allir neyðist til að flytja á suðvestur hornið.  Þetta er myndlíking, þjóðarskútan fer á hliðina í fyrsta storminum ef aflanum er ekki komið fyrir á réttan hátt í lestinni.  Og nú hefur þetta gerst, því sem þjóðin aflaði var ekki skipt rétt á milli þegnanna.  Á nokkrum áratugum hefur arðurinn af auðlindinni sem gerði þjóðina ríka safnast saman á SV-horninu og aldrei með meiri hraða heldur en frá því að framsal aflaheimilda var leyft.  Ábyrgðin á skipbrotinu liggur hjá þeim sem stýrðu skipinu og stefnunni sem þeir tóku. 

Mig langar til að birta hér orðrétt stutta klausu úr Fréttablaðinu síðan í vor sem mér fannst vitna um það að stefnan væri röng.  Bankaráðsmaðurinn kunni ekki á kompásinn og þá ekki radarinn.  Hann var og er ekki með pungapróf.

 

 Kvótakerfið fjáruppspretta

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, bankaráðsmaður í Seðlabankanum og stjórnmálafræðiprófessor, segir í grein í Wall Street Journal í gær að áhyggjur af fjármálakerfi Íslands séu ástæðulausar.  Hannes bendir m.a. á að hafa verði í huga að mikil umsvif Íslendinga séu fremur vegna nýs fjármagns en mikillar skuldsetningar.  Fjármagnið sé í fyrsta lagi til komið vegna kvótakerfisins, þar sem eignarréttindi hafi orðið til; fiskistofnarnir séu orðnir skráð, framseljanlegt og veðsetjanlegt fjármagn.  Önnur uppspretta sé fjármagn, sem lá ónotað í ríkisfyrirtækjum sem hafa nú verið einkavædd, og sú þriðja hið gríðarsterka lífeyrissjóðakerfi á Íslandi.”

 

Er búið að skipta um mannskap í brúnni?



Þurfum við 3 seðlabankastjóra?

"Í Morgunkorni Glitnis í gær kom fram að  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur í samvinnu við ríkisstjórnina tekið við stjórnun peningamála, a.m.k tímabundið. Vaxtahækkunina átti að framkvæma áður en framkvæmdastjórn IMF tæki ákvörðun um hugsanlegt lán til Íslands og legði blessun sína yfir aðgerðaáætlun ríkisstjórnar og sjóðsins."

Þurfum við þá 3 seðlabankastjóra?
Ættu launin þeirra að lækka af því að ábyrgðin sem þeir bera hefur minnkað?
Miðað við íbúafjölda þyrftu Bandaríkin 3000 seðlabankastjóra.

Annars vakna svo margar spurningar um það hvernig landinu okkar er stjórnað og hvernig farið er með peningana okkar.

Þurfum við t.d. að vera með mörg sendiráð þegar við gætum samið við hinar Norðurlandaþjóðirnar um að fá að vera í horninu hjá þeim?
Þurfum við t.d. að vera með 12 ráðherra þegar Frökkum duga 15?
Miðað við íbúafjölda þyrfti Frakkland 768 ráðherra.

En þetta eru nú bara svona vangaveltur.  Auðvitað hef ég ekkert vit á þessu en ég reyni að draga úr kostnaði hjá sjálfum mér þegar harðnar á dalnum.


mbl.is Stýrivextir áfram 18%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi sést nú fyrir endann á vargöldinni í Írak

Barak Obama var kosinn forseti Bandaríkjanna í gær.  Ég vona að honum takist að gera heiminn betri og ég vona að ill öfl komi ekki í veg fyrir það.

Stríðið í Írak hófst þann 20. mars 2003 með innrás bandalags viljugra þjóða með Bandaríkin og Bretland í broddi fylkingar.  Skömmu fyrir þennan óheilladag var mikið kuldakast í Austur Evrópu og margir létu lífið í Moskvu vegna þess.  Innrásin í Írak var yfirvofandi.  Eftirfarandi vísur urðu þá til.

Kalt er við Kremlarmúra

króknar þar öreiginn

Auðvaldsins aum náttúra

öllu snýr hinseginn

 

Og bráðum fer Bush að stríða

og berjast við Saddams lið

Hrynur þá veröld víða

og vargöldin tekur við

 

Bestu kveðjur

Jörundur Garðarsson

Fyrrverandi löggiltur fiskmatsmaður

 


Fiskurinn heldur í okkur lífinu, hér eftir sem hingað til.

 

Bílddælingar eru nokkuð samheldnir þó svo að þeir hafi tvístrast um allar jarðir.  Bíldudalskarlar á höfuðborgarsvæðinu hittast mánaðarlega til þess að ræða málin.  Eitt af því sem bar á góma á síðasta fundi voru möguleikarnir sem fjörðurinn okkar býður uppá.  Fiskeldi var mönnum ofarlega í huga.  Sjálfur var ég ekki á fundinum en fékk fregnir af honum með tölvupósti frá vinum.  Eftirfarandi vísur urðu þá til:

 

Bíldudals káta karla

kreppan hvetur til dáða

Þeir duga og drepast varla

og taka til sinna ráða

 

Fiskarnir synda í sjónum

og senn koma betri dagar

Þorskinum glaðir þjónum

þjóðarhaginn það lagar

 

Laxinn er ágætur líka

látum hann koma í fjörðinn

Hann gerir oss alla ríka

og okkar er framtíðar jörðin

 

Bestu kveðjur

Jörundur Garðarsson

f.v. löggiltur fiskmatsmaður


Oft var þörf en nú er nauðsyn að hafa skoðun og tjá sig.

Í ljósi atburða liðinna vikna þá geta fáir orðabundist og ég þarf líka að fá útrás fyrir skoðanir mínar.  Mörg vorum við búin að sjá bresti í samfélagsbyggingunni um langa hríð en fáir áttu von á hamförunum.  En svo gengu ósköpin yfir og svo alvarlega hriktir í stoðum samfélagsins að búast má við því að það hrynji til grunna eins og hús sem byggt var á sandi.  Og ef það hrynur, hverjir og hvernig á þá að byggja nýtt.  Eiga sömu smiðirnar og byggðu gamla húsið að koma að byggingu þess nýja og á að byggja það aftur á sama sandinum.  Fúskararnir eru nú á fullu að reyna að hafa stjórn á rústabjörguninni og e.t.v. að finna leiðir til að tryggja sér sjálfum það sem kann að vera heillegt og aðstöðu til þess að ráða yfir nýbyggingunni.  Því fylgja áhrif og völd.

En af því að ég hef nú fengið mikla þörf til þess að tjá mig opinberlega þá ætla ég að birta hér það eina sem ég hef látið frá mér fara, en það er fyrir utan nokkrar athugasemdir á www.arnfirdingur.is um verndun gamalla húsa á Bíldudal,  grein sem ég setti á www.bb.is og heitir "Hver fór heim með sætustu stelpunni af Hrunaballinu?" 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband